Í dag var undirritaður samningur vegna Húss íslenskunnar.
Undirritunin fór fram á verkstað og voru það þau Lilja Alfreðsdóttir mennta- og
menningarmálaráðherra, Guðrún Ingvarsdóttir forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins
og Karl Andreassen framkvæmdastjóri ÍSTAKS sem undirrituðu samninginn.
ÍSTAK hefur nú þegar hafið vinnu á svæðinu og undanfarnar vikur hefur vinna við
grunninn verið í fullum gangi.
Hús íslenskunnar mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Það verður á þremur hæðum auk kjallara undir hluta hússins og opins bílakjallara.
Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingu hússins, ÍSTAK er aðalverktaki þess og verkfræðistofan Efla hefur með höndum framkvæmdaeftirlit og byggingastjórn. Aðalhönnuðir byggingarinnar eru Hornsteinar arkitektar ehf.
